Áfanginn er undanfari að frekara námi í félags-og hugvísindum. Eftirfarandi félags-og hugvísindagreinar verða til umfjöllunar í áfanganum:  Félagsfræði, mannfræði, sálfræði, uppeldisfræði, stjórnmálafræði, afbrotafræði, heimspeki. Nemendur fá innsýn í viðfangsefni fræðigreinanna, aðferðafræði þeirra og helstu hugtökum. Reynt er að tengja námsefni áfangans nútímanum og daglegum veruleika nemenda. Nemendur afla upplýsinga eftir fjölbreyttum leiðum og læra að meta eigið vinnuframlag og annarra.

Í lýsingu áfangans hefur verið notast við orðalagið „fólk með fötlun“ en hluti af námsefninu er að kynnast orðræðunni í umfjöllun um fötlun. Fjallað verður um líf, aðstæður og reynslu fólks með fötlun með áherslu á daglegt líf s.s. fjölskyldulíf, menntun, atvinnu og búsetu. Einnig verður fjallað um ímynd og hlutverk fólks með fötlun í dægurmenningu s.s. fjölmiðlum, bókmenntum og almennri orðræðu. Mikil áhersla er lögð á að nemendur auki skilning sinn á því hvernig það er að vera fatlaður í íslensku samfélagi.

Félagssálfræði, greind og persónuleiki.

Atferli, hugsanir og viðhorf eru skoðuð í félagslegu samhengi. Meðal efnisþátta sem teknir eru fyrir eru staðalmyndir, fordómar, hjálpsemi, hlýðni, félagslegur þrýstingur, ást og fortölur. Kenningar og staðreyndir um greind, vitsmunaþroska og greindarmælingar eru kynntar auk þess sem fjallað er um nokkrar gerðir greindarprófa. Mismunandi persónuleikakenningar eru skoðaðar, fjallað um mismunandi tegundir persónuleikaprófa og gerð tilraun til að útbúa persónuleikapróf. Áhersla er lögð á að nemandi geti tekið sjálfstæða, vel rökstudda afstöðu til álitamála varðandi félagssálfræði, persónuleikasálfræði og greind.

Grunnáfangi í sálfræði og kynning á sálfræðinni sem fræðigrein, eðli hennar sögu og þróun. Helstu sálfræðistefnur eru kynntar og grunnhugtök. Þá er fjallað um starfssvið sálfræðinga og helstu undirgreinar. Nemendur kynnast rannsóknaraðferðum sálfræðinnar bæði bóklega og verklega. Fjallað er sérstaklega um námssálarfræði bæði á fræðilegan og hagnýtan hátt og nemendur læra um mismunandi tegundir náms og minnisaðferðir. Fjallað er um samspil hugsunar, hegðunar og tilfinninga, sjálfsmynd, mannleg samskipti, þróun náinna sambanda og almennt um mannlegt eðli. 

Í þessum áfanga er farið í megindlegar og eigindlegar rannsóknir innan félagsfræðinnar.

Í þessum áfanga er fjallað um stöðu kynjanna víðsvegar um heiminn í nútíð og fortíð. Atriði sem geta verið tekin til umfjöllunar eru: völd og virðing kynjanna í ýmsum löndum, hlutverk kynjanna í stríði/átökum, fæðingarorlof, menntun kynja, konur í áhrifastöðum, mansal, samkynhneigð, jafnréttisbarátta og kynin á vinnumarkaði. Lögð er áhersla á umræður og lýðræðislega nálgun í kennslunni. Nemendur eru hvattir til að taka mikinn þátt og hafa áhrif á efnisþætti áfangans. Áfanginn byggir á virkni og þátttöku nemenda þar sem reynir sjálfstæð vinnubrögð jafnt í öflun efnis og miðlun þess.